anna skvísindakona

mánudagur, 27. september 2010

Maður þarf svosem ekki að vera nein skvísindakona til að fatta það, en sjitt hvað það er slæm hugmynd að horfa á Lady Gaga video áður en maður málar sig í framan.

anna skvísindakona @ 21:03 |

föstudagur, 24. september 2010

Ég er búin að eyða svo miklum peningum á síðustu dögum að ef sjúklingur færi að ræða svona upphæðir við mig, myndi ég líklegast ráðleggja honum að taka lithium. En hvað get ég sagt, ef ég á að halda nýr-kjóll-fyrir-hvern-kúrs-prinsippið mitt, þá bara verð ég að bíta á jaxlinn og taka upp visakortið. Sem betur fer keypti ég nóg af nýjum herðatrjám í einhverju eyðslufrenzy í Ikea.
Núna er ég hinsvegar komin uppí sveit, þar sem allar búðir eru lokaðar- nema kannski Hótel Búðir hinumegin á nesinu. Á morgun fer ég svo í réttir og er enn í svaka krísu yfir hvort ég eigi að girða pollabuxurnar ofan í stígvélin eða setja þær utanyfir, þrátt fyrir mjög gagnleg og vel ígrunduð consult frá töff kollegum mínum af Gelluspítalanum.

Skvísindakonan mælir með:
* Kamilluaugnfarðahreinsinum úr Body Shop. Ha, er hún alveg orðin sjúk í Body Shop þessi dama? Kannski ekki alveg, en eftir ábendingu frá Brynju vinkonu prófaði ég þennan og hann er meiriháttar næs og kostar bara slikk. Hins vegar fær Body Shop skammir fyrir að taka af markaði vaxið sitt og bambusskrúbbinn. Af hverju gera þau þetta, hvað hef ég gert þeim?!
* Enron. Fínasta stykki, músikin alveg fantastique og rauðvínið í hléinu var nú ekkert ógeð sko...

anna skvísindakona @ 23:41 |

laugardagur, 18. september 2010

Um síðustu helgi húkkuðum við Guðrún upp partý í ræktinni. Núna áðan vorum við að renna inn í Ólafsvík, fórum í kaupfélagið & þar var okkur umsvifalaust boðið í partý á hótelinu í kvöld.

Not too shabby.... eða hvað?

anna skvísindakona @ 17:33 |

sunnudagur, 12. september 2010

Það kom mér svolítið á óvart hve miklu púðri var eytt í autoerotic asphyxiu í réttarlæknisfræðinni. Nýir tímar, nýjar áherslur geri ég ráð fyrir. Flippið alltaf í þessum perrum, maður veit aldrei hverju þeir taka uppá næst.

anna skvísindakona @ 22:15 |

miðvikudagur, 8. september 2010

Oh, það er svo erfitt að koma sér í einhvern lestur eftir svona skemmtilegt sumar & allt kaffið í heiminum er ekki að vekja neinn metnað hjá mér. Hugurinn bara skilur ekki hvers vegna ég get ekki bara stungið af & buslað í sjónum í Skarðsvíkinni eða kíkt út á Rif í vino & fiskisúpu- ég get svarið það, Snæfellsnesið er California Íslands. Reyndar er rosagaman að hitta aftur fólkið mitt & krakkana í bekknum en eina twistið sem mér dettur í hug til að halda huganum við réttarlæknisfræðina er hvað þetta er ótrúlega relevant þekking ef upp kæmi zombiefaraldur.

Skvísindi: Ertu í réttri stærð af brjóstahaldara? Um 80% kvenna nota ranga stærð og ættu því að láta mæla sig- jah eða mæla sig sjálfar. Hér eru nokkur trix: Einfaldast er að nota málband með tommum af því að stærðin er jú gefin upp í tommum og auðvelt er að meta skálastærðina ef miðað er við tommur. Mældu undir brjóstin og bættu 4 við tölunar þar (5 ef þú mælir oddatölu) og þá ertu komin með ummálsstærðina. Næst mælirðu yfir brjóstin, þar sem þau eru sem stærst. Þar er viðmiðið í grófum dráttum að hver tomma sem bætist við ummálsmælinguna (nb. mælinguna en ekki reiknuðu stærðina) stækkar um eina skál (þ.e. 1 tomma = A skálar, 2 tommur = B skálar, etc.). Annars er lykilatriðið að máta, þar sem þessar stærðir eru engar heilagar kýr og mikill munur getur verið á milli framleiðenda & sniða á brjóstahöldurum.
Þegar brjóstahaldari er mátaður á hann að vera í ystu krækjunum af því að með tímanum verður hann lausari í sér & þá fer maður að nota innri krækjurnar. Ef þú getur togað brjóstahaldarann út lengra en 5-6 cm frá bakinu, þá er hann of stór. Spangirnar eiga að snerta brjóstkassann & ekkert á að gægjast undan þeim & skálarnar eiga ekki að gera för í brjóstin. Böndin eiga að vera passlega löng, ekki það stutt að þau skerist í axlirnar en ekki það löng að þau hangi laus & veiti engan stuðning. Að lokum er snjallt að máta bol utanyfir til að meta hvernig útkoman er.
Hafa ber samt í huga að brjóstin geta breyst að stærð yfir tíðahringinn. Svo þarf auðvitað að pæla í að brjóstahaldarar eru mismunandi í laginu og mismunandi snið geta hentað mismunandi konum- en það er önnur saga.

anna skvísindakona @ 23:44 |

fimmtudagur, 2. september 2010

Ég smíðaði ótrúlega solid masterplan í dag: Að fara í Kringluna á fimmtudegi- þegar það er opið lengi- & fá mér vino & hanga svo í búðum þangað til það rennur af mér. Beisik. Ég vona bara að allt dótið sem ég keypti mér verði jafn töff þegar ég vakna á morgun. Það væri auðvitað alveg ferlegt að þurfa að naga af sér hendina af því að maður keypti sér svo ljóta tösku...

Skvísindakonan mælir með:

* Body Shop regnskógasjampó & næringu. Regnskógasturta! Í þessu eru hunang & hnetur & allskonar fleira gúmmelaði. Skelltu bambusskrúbbinu frá Body Shop með & þú ert... í góðum málum (ég ætlaði að segja golden, en þegar maður segir það í sömu andrá og maður talar um sturtu, þá er maður nú bara að bjóða upp á auladjóka).
* Bakaríinu í Ólafsvík. Í einhverju flippi lagði ég til að þau myndu setja karamellu í stað glassúrs á kanilaugun sín & viti menn- helgina eftir fékk ég svoleiðis. Þetta er svoddan klassafólk þarna í Ólafsvíkinni.
* Singulier maskaranum frá YSL. Eftir langa & strembna snyrtivörukreppu, þar sem ég saup ýmsa fjöruna í maskarabransanum get ég fullyrt að það er krítískt að eiga góðan maskara. Singulier tók blíðum örmum á móti mér í Kringlunni & tók af mér loforð um að ég myndi aldrei framar nota ódýra maskara.

anna skvísindakona @ 23:49 |